Sunday, June 30, 2013

Klingið glösum fyrir manntalinu 1703! Upphefðin er komin að utan!

Mynd af Wikipediu:
manntalið á Skógarströnd
Nú í vikunni voru miklar gleðifréttir gerðar heyrinkunnar: íslenska manntalið 1703 hefur verið tekið á varðveisluskrá UNESCO!

Ég lít á þetta sem persónulegan sigur, enda er manntalið 1703 uppáhaldsmanntalið mitt. Ég kynntist því fyrst síðasta sumar og það hefur staðið hjarta mínu nærri síðan, auk þess áhuga sem það vakti með mér á manntölum almennt. Ég er jafnvel alvarlega að velta fyrir mér að óska mér manntalsins 1703 í útskriftargjöf þegar ég útskrifast úr MA-náminu á næsta ári, en manntalið kom út í heftum á árunum 1924-1947 og kostar fúlgur fjár innbundið í dag svo það verður að vera ærið tilefni til að fjárfesta í því. (Reyndar er ekki mikil eftirspurn eftir því á Þjóðarbókhlöðunni og með reglulegum endurnýjunum gæti ég sennilega haft það í láni í meira en tuttugu ár áður en ég væri komin upp í núverandi kaupverð, miðað við gildandi verðskrá bókasafnsins.)

Vinir mínir – jákvætt og þolinmótt fólk – hafa þurft að sitja undir ansi mörgum ástríðufullum einræðum um manntöl síðan ég kynntist manntalinu 1703. Það er ýmislegt við manntöl sem gerir þau spennandi í mínum augum. Í fyrsta lagi höfða þau einfaldlega sterkt til skráningarperrans í mér; það er bara eitthvað við mörghundruð blaðsíður af nöfnum, vandlega skráð og flokkuð eftir bæjum, hreppum og sýslum.

Í öðru lagi eru manntöl afar áhugavert sögulegt fyrirbæri. Séu lesendur kunnugir kenningum Michels Foucault um lífvald og ögunarsamfélög nútímans fellur þróun manntalsins að þeim eins og flís við rass. Fyrr á öldum notuðu stjórnvöld manntöl einkum við skattlagningu og herkvaðningu, en með breyttum stjórnunaraðferðum nútímaríkisins óx áhuginn á hvers konar lýðfræðilegri upplýsingaöflun. Manntalið sem tekið var á Íslandi 1703 ber þessum nýju hugmyndum vitni, en dönsk stjórnvöld létu skrá það í kjölfar mikilla harðinda á síðustu áratugum 17. aldar og lögðu sérstaka áherslu á að skrá ómaga og flakkara svo hægt væri að bregðast við ástandinu. Þessi áhersla á sinn þátt í sögulegu mikilvægi manntalsins 1703, en það er eitt fyrsta manntalið sem tekið var í heiminum þar sem allir íbúar lands voru skráðir með nafni, einnig konur, börn og aðrir aumingjar. Framsetning lýðfræðilegra upplýsinga á borð við manntöl gefur ennfremur ýmsar vísbendingar um það hvernig fólk skynjar og flokkar samfélagið og íbúa þess og því er sú aðgerð að taka manntal óhjákvæmilega pólitísk og gildishlaðin.

Auk þess hefur allsherjarmanntalið í mínum augum einhverja allt að því ljóðræna vídd; sem tilraun til að skrá alla einstaklinga í samfélagi, sem óralangur listi yfir fólk sem lifði og dó og við hefðum kannski aldrei vitað að hefði verið til ef það væri ekki fyrir þessa einu færslu – „Elín Jónsdóttir, vinnukona, 37 ára“, og þess þá heldur klæjandi tilhugsunin um fólkið sem á að vera á listanum en er kannski ekki þar – við vitum að einhverjir hafa fallið milli þilja í manntalinu 1703, til dæmis er enginn skráður til heimilis í Viðey, sem er nær örugglega rangt.

Það sem gerir manntalið 1703 þó manntala skemmtilegast er að þegar það var tekið voru ekki komin til sögunnar stöðluð eyðublöð og skráningarmaður hverju sinni hafði því svolítið svigrúm til að setja eigið mark á skráninguna, þótt fyrirmælin væru skýr. Manntalið var hluti af umfangsmikilli upplýsingasöfnun sem Árni Magnússon og Páll Vídalín voru fengnir til að sjá um (þeir skráðu líka jarðabókina frá 1702-1714 sem við þá er kennd og hefur sinn sjarma, þótt mér þyki heilt yfir skemmtilegra að skoða fólk en bújarðir) en yfirleitt voru það hreppstjórar á hverjum stað sem gerðu skrá yfir sitt fólk, ýmist með því að fara bæ af bæ eða stefna mönnum til sín.

Þeir sem tóku manntalið í Suður-Dölum gerðu sér til dæmis far um að taka fram hver lifði á hverjum; sumir eru „á sinn kost“, aðrir „á húsbóndans kost“. Hins vegar lögðu þeir sem tóku manntalið í Eyrarsveit á Snæfellsnesi metnað í að gera grein fyrir heilsufarsástandi íbúanna og þeim krankleikum sem hrjáðu þá: Gömul kona er „hölt og örvasa“. Nokkrir eru „veikir af stórflugum“. Piltur er „veikur af áfallandi sárablettum“ og hjáleigumaður er „óvenjulega veikur í læri“. Í annarri hjáleigu er kona „mjög veik af innvortis stöðublóði“ (en það ku hafa verið algengur kvilli kvenna á þessum tíma að vera uppfullar af blóði sem ekki fann sér útgöngu. Til dæmis er stór hluti grasafræði séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal helgaður tíðateppu (ég velti því fyrir mér í alvöru við lesturinn hvort einhver af lækningaráðum hans gætu verið skrauthvörf fyrir fóstureyðingu)). Hreppstjórarnir hafa kannski sett mark sitt á sjálfar sjúkdómsgreiningarnar; stórflugin hef ég ekki séð koma fyrir annars staðar en í Eyrarsveit, en í Geiradalshrepp í Barðastrandarsýslu þjást aftur á móti grunsamlega margir af offylli.

Lýsingarnar á ómögunum sem stjórnvöldum var svo mikið í mun að fá upplýsingar um bera afstöðu samfélagsins til þessara lægst settu hópa ekki mjög glæsilegt vitni. Sérstaklega margir ómagar voru í Neshreppi á Snæfellsnesi, þar sem voru miklar þurrabúðabyggðir. Í Neshreppi var til dæmis Ólöf Vigfúsdóttir sem var „óhaldandi fyrir óknyttum“ og Jórunn Jónsdóttir sem talin var „rjettur amlóði“. Angurværari lýsingar er að finna um Helgu Pjetursdóttur sem var „örvasa eymdarfugl“, og nöfnu hennar Eyvindardóttur, sem átti tvö ár í áttrætt og var, eðlilega, „uppgefin“. Jón Hannesson var „lausingi og prakkari“ en Loftur Vigfússon starfaði sem „böðull og flengimann“. Og hvaðan kom framandi nafn Dordíu Harísdóttur á Arnarstapa?

Annað óhjákvæmilegt einkenni allsherjarmanntals á borð við manntalið 1703 er að það er, í einhverjum skilningi, lýðræðislegra en aðrar heimildir frá svipuðum tíma. Það eru að sjálfsögðu ýmsar pólitískar hliðar á skráningu manntals, ýmislegt sem verður að varast í túlkun þeirra eins og annarra heimilda og svo framvegis, en samt sem áður höfum við í höndunum lista yfir alla meðlimi samfélagsins; háa og lága, heilbrigða og sjúka, unga og gamla, karla og konur. Stór hluti þessa fólks kemur ekki fyrir í neinum öðrum heimildum, en lifir einungis í þessari einföldu skráningu nafns, stöðu, aldurs og staðsetningar í manntali sem vildi svo til að var tekið meðan þau voru á lífi. Sökum áhuga danskra stjórnvalda á ástandi þjóðarinnar eftir harðindin er hinna sjúku og snauðu jafnvel getið með fleiri orðum en fólks sem var ofar í þjóðfélagsstiganum.

Reglulega kemur upp umræða um skarðan hlut kvenna, og annarra samfélagshópa sem skilja síður eftir sig heimildir, í sögukennslubókum og yfirlitsritum. Þá heyrast jafnan raddir sem fullyrða að það að auka meðvitað hlut slíkra hópa í sagnaritun jafngildi einhvers konar sögufölsun á forsendum pólitískrar rétthugsunar. Ég fæ stundum á tilfinninguna að þessir menn haldi að konur hafi ekki verið til í gamla daga, þetta sé bara eitthvað fyrirbæri sem hafi orðið til með nútímavæðingunni, eins og þjóðríkið og járnbrautarlestin.

Mér hefur fundist það góð áminning að fletta manntalinu 1703, þar sem hægt er að strjúka fingri yfir nöfn og heilsufar þessa fólks á síðunni: 27.831 kona, 55% mannfjöldans í heild, sem voru jafn stór hluti af íslensku hversdags- og þjóðlífi og þeir 23.126 karlar sem í manntalinu eru. Ég slæ hér með fram tillögu að rammatextum í kennslubók sem fjallar um íslenska bændasamfélagið á nýöld: nokkur dæmi úr manntalinu 1703. Þurrabúðaþyrpingar, sjúkdómar, innræktun, lærðra manna ekkjur, alþingisreiðar, böðlar og almennur búskapur, it´s all there.

Ég er reyndar líka sannfærð um að þeir sem telja það sögufölsun að breyta áherslum kennslubóka og yfirlitsrita hafi ekki mjög djúpan skilning á sagnfræði, né yfirgripsmikla þekkingu á þeim heimildum sem fyrir liggja. Oftar en ekki virðast þeir ekki gera sér grein fyrir því að kennslubækurnar og yfirlitsritin sem þeir vísa til sem hlutlausrar og áreiðanlegrar framsetningar sögulegrar þekkingar eru ekkert síður afurð pólitískra ákvarðana, meðvitaðra eða ómeðvitaðra, um það hvað tilheyrir hinni frásagnarverðu sögu. Það eru til fleiri góðar bækur en þær sem getið er í Sýnisbók heimsbókmenntanna, eins og máltækið segir.

Svo ég hverfi aftur að heiðurgesti vikunnar, manntalinu 1703, er ég búin að blaðra svo mikið um manntöl síðasta árið við hvern sem heyra vill að þegar Síðdegisútvarpið ákvað að vera með innslag um sess þess á varðveislulistanum var hringt í mig. Hér er hægt að nálgast þetta stutta viðtal. Langi fólk að kynna sér manntalið 1703 frekar má benda á afmælisrit sem gefið var út í tilefni af 300 ára afmæli manntalsins (þótt það hafi reyndar ekki komið út fyrr en 2005), Manntalið 1703 þrjú hundruð ára. Greinar í tilefni afmælis, sem ritstýrt var af Ólöfu Garðarsdóttur og Eiríki G. Guðmundssyni. Það er hægt að leita í manntalinu 1703, sem og nokkrum öðrum manntölum, á manntalsvef Þjóðskjalasafnsins, þótt ég gæti vel hugsað mér fleiri og ítarlegri leitarmöguleika. Skemmtilegast er þó að sjálfsögðu að lesa manntalið sjálft!

No comments:

Post a Comment